Heim

Grímur Jónsson var það sem kallast því fallega orði, þúsundþjalasmiður. Það kæmi mér meira að segja ekki á óvart þó hann hafi einhverntímann smíðað þjöl fyrir eitthvað ákveðið verkefni því hann smíðaði margskonar sérhæfð verkfæri þegar á þurfti að halda.

Auðvitað á ekki að taka þetta orð bókstaflega en þegar ég var lítill þá sagði ég reglulega “Pabbi getur allt!”. Og það var ansi mikið til í því. Það var ekki nóg að vera einn af færustu veiðimönnum landsins heldur hannaði hann og hnýtti líka eina frægustu íslensku veiðifluguna, Snældu.

Hann gerði upp elsta mótorhjól landsins, Henderson 1918 af einstöku listfengi og smíðaði fjölda hluta í hjólið sjálfur þar sem erfitt eða ómögulegt var að fá allt sem vantaði í hjólið. Það trúði enginn nema hann að hræið sem honum áskotnaðist yrði aftur að hjóli en það varð og það var keyrt, áður en hann dó.

Þessi vefur er í minningu einstaks manns, bæði til handa og huga. Vefurinn mun aldrei ná að sýna hann eins og hann var en vonandi gefa smá innsýn inn í manninn og líf hans, meira verður varla gert á þessum vettvangi. Það voru einstök forréttindi að vera sonur hans og læra af honum ýmislegt, mest það sem ekki verður hönd á fest. Set hér í lokin minningarorð sem ég las í jarðarför hans, þau ná að einhverju leyti að þakka fyrir mig.

Minningarorð um Grím Jónsson, flutt í jarðarför hans 1. nóvember 2012 af Gunnar Grímssyni

Þegar ég var krakki þá sagði ég oft: “Pabbi getur allt.” Það var ekki byggt á sandi, ég hafði einfaldlega aldrei séð neitt sem hann gat ekki gert. Og sá það ekki oft yfir ævina, hann gat allt sem hann vildi gera.

Hann og lífið léku sér saman, þau skemmtu sér vel við þann leik og bar nær aldrei skugga þar á. Hann kunni að lesa umhverfið til að komast sem best þangað sem hann vildi, hvort sem var í akstri, veiði eða vinnu. Hann var stór maður, á alla kanta.

Eftir að mamma dó var það Henderson hjólið sem hélt honum í gangi. Hans stórmeistarastykki sem hann var ekki að flýta sér að ljúka því það átti að endast ævina. Sem það og gerði því hjólið var keyrt með glæsibrag eftir áratuga hvíld, nokkrum dögum áður en hann dó. Allir þeir sem aðstoðuðu hann við smíðina á einn eða annan hátt fá mínar innilegustu þakkir fyrir. Sú hjálp verður aldrei fullþökkuð.

Síðasta stundin var eins góð og getur orðið, hann fór í svefni, kvalalaus og sáttur. Vissi áður en hann fór að sofa að þessu væri að ljúka og við vorum hjá honum þegar hann dó. Hann sagði við mig, skömmu fyrir dauðann: “Ég hef átt góða ævi, maður biður ekki um meira”.

Hann fór eins og hann hafði lifað, án lúðrablásturs eða eftirsjár, áfangastaður óviss í hans huga en hann var alltaf reiðubúinn að kanna nýjar slóðir. Hann dó vel, eins og hann hafði gert allt sem hann kom að í lífinu, hvort sem var að veiða, smíða, fræða eða bara hreinlega vera skemmtilegur.

Ég hef séð betur og betur á liðnum mánuðum hvað ég lærði margt af honum þó ég muni seint verða föðurbetrungur. Ég var ekki einn um að læra af honum því mannkostir hans hreinlega smituðust á þá sem hann hitti, ef þeir á annað borð vildu læra, því hann kenndi með því að vera.

Bless elsku pabbi minn. Takk fyrir allt.