Henderson 1918

Á seinni hluta síðustu aldar, í kringum 1980 var Grímur í heimsókn hjá Þorgeiri bróður sínum sem vann í vélsmiðjunni Héðni þegar hann rak augun í hræ af mótor sem honum fannst áhugaverður. Hann þóttist sjá að hann væri úr gömlu mótorhjóli enda hafði hann haft áhuga á mótorhjólum og bílum frá unga aldri og þegar hann spurðist fyrir um mótorinn þá kom í ljós að grindin sem hann hefði komið úr var komin í brotajárnshaug og var á leiðinni í bræðslu. Hann rótaði dágóða stund í haugnum og fann grindina auk ónýtra felgna, dekkja og í raun flest af því sem einhverntímann áður hafði verið mótorhjól.

Hann fékk að hirða allt draslið, tók það með sér upp á verkstæðið sitt (Járnsmíðja Gríms Jónssonar í Súðavogi 20), stakk því upp á háaloft og þar fékk það að dúsa um hríð. Hann sagði við þá sem spurðu að þetta hjól ætlaði hann að gera upp þegar hann væri hættur störfum en því trúði ekki nokkur maður enda var þetta allt saman ryðgðað í spað, hvort sem var grind, felgur, bretti eða annað. Allt virtist ónýtt.

Undir lok síðustu aldar fór hann að dunda sér við að pússla mótornum saman, finna varahluti á eBay með hjálp Kristins Sigurðssonar og þess sem hér skrifar. Á eBay fannst ýmislegt en allt þurfti að gera upp og margt var útilokað að finna og þurfti að smíða. Það flæktist ekkert fyrir Grími, hann einfaldlega smíðaði það sem þurfti að smíða, lagaði það sem þurfti að laga og fékk aðstoð við sérhæfða hluti sem hann hafði ekki aðstöðu til að smíða, m.a. strokka sem vantaði í mótorinn. Það þurfti auðvitað að gera upp hvern einasta hlut í hjólinu, tæplega 100 ára gamlir hlutir í mótorhjól voru ekki nothæfir.

Allt hafðist þetta á hæfileikum, þekkingu, lagni og þrjóskunni, það kom aldrei annað til greina en hjólið færi saman. Og saman fór það og nokkrum vikum fyrir andlát Gríms keyrði það fyrir utan heimili hans að Sléttuveg 19. Þau eru fá stórmeistarastykkin sem toppa þetta og fáu er ég jafn stoltur af í mínu lífi eins og því litla sem ég lagði af mörkum til að hann næði að sjá hjólið keyra áður en hann dó. Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá umfjöllun um hjólið úr Kastljósi RÚV áður en hjólið var tilbúið. Einnig er hægt að skoða fleiri ljósmyndir á sérsíðu. 

Á þessu myndskeiði sést þegar hjólið er keyrt fyrir utan heimili Gríms skömmu fyrir andlát hans.

Myndskeið frá Guðbjarti Sturlusyni frá keyrslu hjólsins

Það er mér sönn ánægja og skylda að þakka öllum þeim sem hjálpuðu pabba við smíði hjólsins, ég þekki þá ekki alla en sérstakar þakkir fá Kristinn S Sigurdson og Guðbjartur Sturluson fyrir óbilandi aðstoð á seinni stigum smíðinnar. En ekki síður allir hinir sem lögðu allskonar pússl í verkið, þið vitið hverjir þið eruð, þið eigið heiður skyldan fyrir það.

Aðrir sem ég veit að hjálpuðu til á einhvern hátt eru Guðjón Valdimarsson sem sandblés hluti í hjólið, Björn Pétursson sem hjálpaði við flutning á hjólinu á Sléttuveginn eftir að pabbi veiktist, Erling Egilsson sem endurvann lógóið á bensíntankinn eftir ljósmyndum af tankinum og öðrum hjólum með heilu lógói.

Þetta er ekki tæmandi listi, langt því frá! Endilega sendu mér skilaboð ef þú komst að þessu verki á einhvern hátt.