Orðið dverghagur kemur upp í hugann þegar lagni Gríms við smíðar ber á góma. Marga heyrði ég segja að það væri ótrúlegt hvað þessir stóru puttar gætu smíðað fínlega hluti sem jafnvel sást ekki síst í fluguhnýtingunum. Það lék allt í höndunum á honum og ef hann átti ekki réttu verkfærin þá smíðaði hann þau. Ég man satt að segja ekki eftir því að hann notaði orðin “þetta er ekki hægt” nema á eftir kæmi “nema við kannski gerum það svona” eða eitthvað þvíumlíkt. Þessi eiginleiki skipti höfuðmáli við að koma Henderson hjólinu saman, án þrjóskunnar og lagninnar væri það enn ryðhrúga.