Grímur var veiðimaður af lífi og sál frá unga aldri. Ófá voru þau skiptin þar sem hann komst ekki alla leið í skólann því yfir Rauðalæk var að fara og alltaf var kíkt eftir fiski og ef eitthvað sást þá var reynt að veiða, einhvernveginn. Í öllum ferðum sem ég fór með pabba þá stoppaði hann á brúm á hinum og þessum laxveiðiám, eftir því hvernig stóð á það sumarið og skimaði eftir fiski. Aldrei var keyrt niður að húsi á Hvalsá án þess að stoppa fyrst á brúnni og kíkja niður í Brúarhylinn.
Hann veiddi ekki bara á stöng heldur líka í net og einnig aðra bráð sem í boði var, gæs, rjúpu og aðra fugla og ég man eftir honum snarnegla niður á Holtavörðuheiðinni, rjúka í skottið eftir byssu og hverfa út í sortann. Stuttu síðar heyrðust hvellir og síðan kom hann til baka, opnaði skottið og setti þar byssu og 2 rjúpur. Síðan var haldið áfram suður til Reykjavíkur. Í annað skiptið stoppaði hann á Reykjanesbrautinni til að hlaupa á eftir mink sem hafði skotist yfir veginn en í það skiptið vann minkurinn enda nóg af gjótum í hrauninu til að stinga sér ofan í.
Hann leigði fjölmargar ár með félögum sínum í gegnum tíðina og eignaðist hlut í tveimur, Stóru-Hvalsá í Hrútafirði og Kaldbaksvík á Ströndum. Ár sem hann leigði sem ég man eftir voru Svartá, Korpa (Úlfarsá) og Laxá í Miklholtshreppi en þær voru fleiri, flestar fyrir mína meðvitund. Hann var ótrúlega fiskinn, oft kom það fyrir að hann kom í ár þar sem ekkert hafði veiðst hollin á undan en raðaði fiskunum á bakkann enda var hann oft talinn í hópi fremstu veiðimanna landsins. Hann þekkti Elliðaárnar manna best enda veitt þar frá barnsaldri og var oft fenginn til að leiðbeina ýmsum þar, bæði fyrirmennum og öðrum sem þurftu á aðstoð að halda.
Hann elskaði líka dýr lifandi þó hann hafi aldrei átt nein gæludýr eða haldið hesta. Hvort sem það voru kettir, hundar eða litli yrðlingurinn sem hélt til í Kaldbaksvík, ansi gæfur að mönnum að þá fannst honum alveg magnað að fylgjast með þeim. Og það er ekki fyrr en ég skrifa þetta að ég átta mig á að þetta hef ég líklega að einhverju leyti lært af honum, eins og svo margt gott.